Laus pláss á námskeið um ungmenni með einhverfu

Formlegri skráningu er lokið á námskeiðið „Ungmenni með einhverfu og önnur þroskafrávik" sem haldið verður 13. – 14. maí næstkomandi í Gerðubergi. Hinsvegar eru nokkur pláss laus og því hægt að komast að með því að skrá sig á biðlista.

Námskeiðið er ætlað foreldrum, aðstandendum og þeim sem starfa með ungmennum frá 13 ára aldri. Hér má nefna kennara, sérkennara, námsráðgjafa, þroska- og iðjuþjálfa sem starfa innan grunn- og framhaldsskóla og fleiri. Einnig ráðgjöfum hjá skóla- og félagsþjónustu sveitarfélaga auk fagfólks innan heilsugæslu.

Á námskeiðinu verður fjallað verður um ódæmigert þroskaferli, styrkleika, áskoranir og hvernig það er að vera öðruvísi. Rætt verður um áhrifaþætti varðandi sjálfsmynd, líðan, samskipti og tengsl þeirra við geðheilsu svo sem kvíða og þunglyndi. Ennfremur verður farið yfir samspil þroska og færni í daglegu lífi og hvernig skipulag og aðlögun umhverfis getur stuðlað að aukinni þátttöku og lífsgæðum ungmenna í þessum hópi. Farið verður yfir hvort greining feli í sér létti eða sorg og hvaða þýðingu hún hefur fyrir viðkomandi einstakling, fjölskyldu hans og nærsamfélagið. Fjallað verður um viðurkennt verklag í þjónustu auk þess sem foreldri mun segja frá eigin reynslu. Námskeiðið er byggt á fyrirlestrum og umræðum.

Hér er hægt að skrá sig á biðlista.