Fyrsta ársskýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar

Forsíða ársskýrslunnar
Forsíða ársskýrslunnar

Ársskýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar árið 2018 er komin út. Þetta er fyrsta ársskýrsla stofnunarinnar, en hún hóf starfsemi sína í maí 2018. Í ársskýrslunni er almenn umfjöllun um stofnunina og starfið á fyrsta starfsári hennar.

Í skýrslunni kemur fram að verkefnin á fyrsta starfsárinu hafi verið margvísleg. Þau hafi meðal annars falist í þróun og mótun verklags, gerð verkferla og skilgreiningu verkefna sem undir stofnunina heyra, bæði umfang og verksvið. Lögð var áhersla á kynningu á stofnuninni og efnt til samstarfs bæði innanlands og utan með það í huga að afla þekkingar hjá þeim sem hafa langa reynslu á sviði gæðamála og eftirlits. Með samþykkt nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir á árinu og breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglugerðum sem settar voru samhliða, fékk stofnunin mun skýrara umboð til starfa en ella hefði verið. Lagabreytingunum fylgdu einnig ný verkefni, svo sem afgreiðsla starfsleyfisumsókna frá öllum einkaaðilum á landinu sem veita þjónustu samkvæmt ofangreindum lögum. Gildir þá einu hvort þeir voru í rekstri þegar lögin tóku gildi eða hyggjast hefja rekstur. Það sama á við um umsýslu vegna NPA-þjónustu.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að löngu hafi verið orðið tímabært að setja gæða- og eftirlitsstofnun á laggirnar. Í skýrslu nefndar félags- og húsnæðismálaráðherra frá 2016, um endurskoðun stjórnsýslu og eftirlits á sviði félagsþjónustu og barnaverndar, kom fram að almennt væri það sjónarmið ríkjandi að eftirliti með félagsþjónustu væri ábótavant og að mikil þörf væri fyrir gæðavísa og eftirlit sem byggðist á þeim.

Skýrsluna má finna hér.