Snemmskráningu á ráðstefnu um snemmtæka íhlutun lýkur 23. apríl

Snemmtæk íhlutun getur haft jákvæð áhrif á þroska
Snemmtæk íhlutun getur haft jákvæð áhrif á þroska

Við vekjum athygli á að snemmskráningu fyrir vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafastöðvar lýkur 23. apríl nk., sem er fyrsti virki dagur eftir páska (3. í páskum!) og því um að gera að skoða dagskrána og skrá sig fljótlega. Eftir 23. apríl hækkar skráningargjaldið um ríflega 18% frá því sem nú er. 

Þema vorráðstefnunnar, sem er orðin að föstum lið hjá stórum hópi fagfólks, er snemmtæk íhlutun, sem er lykilatriði í þjónustu við ung börn með raskanir í taugaþroska. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur frá upphafi lagt áherslu á að kenna snemmtækar íhlutunarleiðir fyrir börn með þroskafrávik og síðastliðið haust var hugtakið fest í sessi í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Það er því vel við hæfi að helga vorráðstefnuna í ár þessum vinnubrögðum og ýmsu sem þeim tengjast.

Mörg áhugaverð erindi verða flutt á ráðstefnunni. Ingólfur Einarsson barnalæknir Greiningar- og ráðgjafarstöð veltir upp spurningunni með hvaða hætti hægt sé að hafa áhrif á færni og þroska barna, Þorsteinn Hjartarson sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar segir frá þróun verklags skólaþjónustu í anda snemmtækrar íhlutunar í sveitarfélaginu og Dr. Elín Þöll Þórðardóttir talmeinafræðingur og prófessor við McGill háskólann talar um tvítyngi og þroskafrávik í máli og mikilvægi snemmtækrar íhlutunar. Auk ofangreindra erinda verða fleiri flutt fleiri erindi, bæði af fagfólki og foreldrum barna með reynslu af snemmtækri íhlutun.

Skráning á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafastöðvar er hér.
Dagskránna má finna hér.