Styrkur til rannsóknar á fjölgun tilvísana barna af erlendum uppruna

Félags- og barnamálaráðherra afhenti styrkinn
Félags- og barnamálaráðherra afhenti styrkinn

Félags- og barnamálaráðherra hefur ákveðið að veita Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins styrk að fjárhæð 3.000.000 kr. vegna rannsóknarinnar „Fjölgun tilvísana á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins vegna barna af erlendum uppruna – Í hverju felst hún og hvað veldur henni?“

Mikil fjölgun hefur orðið á tilvísunum barna af erlendum uppruna á GRR og um leið hefur spurningin vaknað hvort fjölgun tilvísana haldist í hendur við fjölgun innflytjenda á Íslandi. Samkvæmt gagnagrunni GRR var hlutfall tilvísana barna af erlendum uppruna 7,5% af heildartilvísanafjölda árið 2005 en árið 2018 var það komið upp í 28,3%. Í fljótu bragði virðist þetta hlutfall vera orðið hærra en búast mætti við sé horft til barna af erlendum uppruna á Íslandi almennt, en þetta þarf að rannsaka nánar. Hátt hlutfall tilvísana á GRR gæti til dæmis verið vísbending um að ekki sé verið að mæta fjölbreyttum þörfum barna innflytjenda í íslensku samfélagi.
Emilía Guðmundsdóttir, sálfræðingur á yngri barna sviði GRR er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar en þverfaglegt teymi stofnunarinnar kemur að auki að rannsókninni. Í teyminu eru auk Emilíu, dr. Evald Sæmundsen, sálfræðingur og rannsóknarstjóri GRR, Andrea Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi á yngri barna sviði og dr. Ingibjörg Georgsdóttir, barnalæknir og inntökustjóri á GRR.

Styrkir ráðuneytisins voru afhentir við formlega athöfn föstudaginn 12. apríl 2019 að Hannesarholti.

Á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga má sjá upplýsingar um önnur framlög vegna rannsóknar- og þróunarverkefna í innflytjendamálum.