Kynning á rannsóknar - og þróunarverkefnum, lokafrestur!

Vorráðstefna 2018
Vorráðstefna 2018

Frestur til að senda inn kynningar á rannsóknar- eða þróunarverkefnum fyrir vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sem verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica 26. og 27. apríl 2018 rennur út 2. mars næst komandi. Yfirskrift ráðstefnunnar er:

Mátturinn í margbreytileikanum! Einhverfa og skyldar raskanir – þekking og leiðir í þjónustu við börn og ungmenni.

Fjallað verður um einhverfurófið og fjölbreytileikann sem það felur í sér.  Farið verður yfir þróun þekkingar og rannsókna á þessu sviði. Íhlutun á vettvangi fjölskyldu, skóla og samfélags verður einnig í brennidepli með áherslu á helstu leiðir til að auka þátttöku og lífsgæði í daglegu lífi. Ráðstefnugestir fá innsýn í sjónarmið og reynslu fólks á einhverfurófi þar sem rætt verður hvernig má auka skilning samfélagsins, nýta styrkleika hvers og eins og mæta ólíkum þörfum.

Eins og áður gefst tækifæri til að kynna ný rannsókna- og þróunarverkefni, ásamt nýjungum í starfi með fötluðum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins býður aðstandendum slíkra verkefna að kynna þau í fyrirlestrum eða á veggspjöldum. Einnig eru ábendingar um áhugaverð verkefni vel þegnar.

Óskað er eftir eftirfarandi upplýsingum:

  1. Titill verkefnis.
  2. Nafn/nöfn höfunda.
  3. Nafn þess sem flytur kynninguna, starfsheiti, vinnustaður og netfang.
  4. Ágrip þar sem fram kemur: Stutt lýsing á verkefni, markmiði, leiðum og helstu niðurstöðum.

Hámarks lengd á innsendu efni miðast við 2.000 slög (með bilum) með letrinu Calibri 11p í word skjali. Ef kynning er samþykkt verður hún birt í ráðstefnugögnum eins og hún er send inn.

Kynningar verða með tvennum hætti:
Erindi í málstofu: 
Lengd 15 mínútur. Glærur verðar settar á heimasíðu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar að ráðstefnu lokinni.
Veggspjöld: Stærð veggspjalda skal vera: hæð 120 cm og breidd 90 cm (mega vera minni).

Tillögur skulu sendar í viðhengi á netfangið: fraedsla@greining.is fyrir 2. mars 2018 merkt: Kynning 2018. Öll innsend erindi eru metin og höfundar látnir vita um niðurstöðu að því loknu.