Alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar

Alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar
Alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar

Í dag 27. október er alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar. Víða um heim nýta iðjuþjálfar tækifærið til að kynna fag og störf á fjölbreyttum vettvangi. Iðjuþjálfafélag Íslands (IÞÍ) var stofnað 1976 og fagnar því 40 ára afmæli í ár. Nám til BSc gráðu í iðjuþjálfunarfræði hófst við Háskólann á Akureyri 1997 en fyrir þann tíma þurfti fólk að nema iðjuþjálfun á erlendri grundu. Félagsmenn eru nú um 280 talsins og starfa um allt land þar sem þeir veita börnum, unglingum, fullorðnum og öldruðum þjónustu. Iðjuþjálfar starfa hjá ríki, sveitarfélögum, á almennum vinnumarkaði auk þess að vinna sem sjálfstætt starfandi sérfræðingar.

Bjargráð í brennidepli
Iðjuþjálfar vinna með fólki sem vegna heilsuástands eða fötlunar getur ekki sinnt þeirri daglegu iðju sem það þarf og vill inna af hendi. Þetta eru athafnir sem skipta máli fyrir eigin umsjá, heimilisstörf, nám, atvinnuþátttöku og tómstundaiðju. Iðjuþjálfi og skjólstæðingur vinna saman, setja markmið og finna leiðir til að hann eða hún megi efla færni sína og þátttöku í samfélaginu. Þannig er unnt að stuðla að auknu sjálfstæði og lífsgæðum viðkomandi. Vettvangurinn er fjölbreyttur innan heilbrigðis-, félags- og menntakerfis við heilsueflingu, forvarnir og endurhæfingu.

Iðjuþjálfar hafa sérþekkingu í að meta samspil færni og umhverfis og finna hagkvæmar lausnir á hvers kyns iðjuvanda sem hefur neikvæð áhrif á heilsu barna og fullorðinna þar sem markmiðið er ávallt að efla færni, sjálfstæði, þátttöku og lífsgæði.

Við á Greiningar- og ráðgjafarstöð óskum iðjuþjálfum innilega til hamingju með daginn! Smellið hér til að skoða heimasíðu IÞÍ.