Alþjóðadagur fatlaðra 3. desember

Bætt heilsa fyrir fólk með fötlun
Bætt heilsa fyrir fólk með fötlun

Alþjóðadagur fatlaðra var fyrst haldinn fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna árið 1992 í kjölfar alþjóðaárs fatlaðra 1981 og áratugs fatlaðs fólks 1981-1991. Í tilefni dagsins veita Landssamtökin Þroskahjálp viðurkenninguna „Múrbrjótinn“ einstaklingi eða einstaklingum, félagi eða verkefni sem að mati samtakanna hefur brotið niður múra í réttindamálum fatlaðs fólks og viðhorfum til þess og með því stuðlað að því að fatlað fólk verði fullgildir þátttakendur í samfélaginu og hafi tækifæri til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) heldur upp á daginn með því að minna á alþjóðaáætlun fyrir fatlaða 2014-2021: Bætt heilsa fyrir fólk með fötlun. Sérstök áhersla er á endurhæfingu í samfélaginu (Community-based rehabilitation) þar sem markmiðin eru að auka lífsgæði hjá fólki með fötlun og fjölskyldum þeirra, að mæta grunnþörfum og tryggja fullgilda þátttöku í samfélaginu.