Að sjá hið ósýnilega

Á morgun, 2. apríl á alþjóðlegum degi einhverfu, verður frumsýnd heimildarmynd um konur á einhverfurófi, líf þeirra og reynslu.  Stúlkur fá oft greiningu seint og það hefur neikvæð áhrif á heilsu, líðan og lífsgæði og fjallar myndin um sýn og upplifun kvennanna. 

Unglingsárin eru mörgum erfið og fyrir stúlkur á einhverfurófi geta þau verið nánast óbærileg. Félagsleg samskipti unglingsstúlkna eru flókin og einkennast af óyrtum skilaboðum eins og augngotum og líkamstjáningu. Samskiptin eru oft óskiljanleg fyrir einhverfar stelpur og þær eiga á hættu að  einangrast. Oft á tíðum eru þær lagðar í einelti með þeim afleiðingum að þunglyndis- og kvíðaeinkenni koma til sögunnar. Brýnt er að stúlkur á einhverfurófi fái greiningu sem fyrst þannig að hægt sé að undirbúa þær og styðja fyrir unglingsárin til dæmis með þjálfun í félagsfærni.

Myndin fer í almennar sýningar 9., 16., og 24. apríl. Nánari upplýsingar um myndina á vef Einhverfusamtakanna og á Facebooksíðu myndarinnar.