Vorráðstefnan hefst í dag!

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar hefst í dag stendur til kl. 15:30 á föstudag. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er Mennt er máttur; fjölbreytt þjónusta fyrir börn með sérþarfir á öllum skólastigum. Ráðstefnan er haldin í 35. skipti og er stærsti faglegi vettvangur þeirra sem tengjast börnum með þroskafrávik. Eins og nafn ráðstefnunnar bendir til er hún alla jafna haldin að vori en var fresta í maí vegna Covid19. Alls taka 30 fyrirlesarar, bæði fagfólk og fólk í stjórnsýslunni,  til máls í 26 erindum undir stjórn sex fundarstjóra. Um 350 manns hafa skráð sig á vorráðstefnuna, bæði á staðnum og í streymi, sem haldin er í 35. sinn.

Á ráðstefnunni kennir margra grasa og eru erindin jafn fjölbreytt og fyrirlesararnir. Hermundur Sigmundsson prófessor í sálfræði við Norska tækni -og vísindaháskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík verður með fyrirlestur sem heitir Kveikjum neistann! Þar fjallar hann um þróun, færni, hæfileika, endurtekningar, sérhæfingu og þjálfun með fókus. Einnig verður talað um mikilvægi ástríðu, þrautseigju og hugarfars til þess að geta skarað fram úr og hversu nauðsynlegar áskoranir og eftirfylgni eru og hversu mikilvægt það er fyrir aukna þekkingu og færniþróun að góður kennari og „mentor“ sé til staðarIngibjörg Georgsdóttir barnalæknir á Greiningar- og ráðgjafarstöð fer yfir niðurstöður doktorsverkefnis síns á litlum fyrirburum og fæddust á árunum 1982 – 2012 hérlendis og hvaða sérstöku þörfum þarf að mæta þegar börnin koma í skóla.  Rannsóknir með víðu sjónarhorni á þroska, atferli og líðan hafa leitt í ljós frávik hjá litlum fyrirburum, sem hafa áhrif á námsfærni, samskipti og lífsgæði.

Á ráðstefnunni verða áhugaverð erindi í tengslum við upplýsingatækni og nýtingu tæknilausna á hinum ýmsu stigum samfélagsins. Mikilvægt er að sú þróun skili sér inn í fagþjónustu við nemendur með það að leiðarljósi að færa hana á enn hærra stig. Að sama skapi verður fjallað um nýtingu upplýsingatækni og ofnotkun skjátækja. Einnig verður fjallað um fjölmenninguog þjónustu við börn af erlendu bergi, íþróttastarf barna með sérþarfir og fleira.

Sjá dagskrá hér.