Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar verður haldin í streymi

Í ljósi núverandi samkomutakmarkana, sem taka gildi 15. apríl og standa í þrjár vikur, er ljóst að vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar 29. og 30 apríl verður alfarið haldin í streymi. Við stefnum því á að halda metnaðarfulla og áhugaverða ráðstefnu í því framúrskarandi tækniumhverfi sem Reykjavík Hilton Nordica hótelið býður upp á fyrir þátttakendur í streymi. Þátttakendur geta tekið þátt í umræðum og sent inn spurningar og athugasemdir í gegnum ráðstefnu- og spurningaforritið Slido, sem margir ráðstefnuþátttakendur eru farnir að kannast við. Skráningar þátttakenda, sem voru búnir að skrá sig í sal, verður breytt í streymisþátttöku, en kjósi fólk að afboða sig er það að sjálfsögðu einfalt. 

Dagskráin er áhugaverð og metnaðarfull fyrir allt fagfólk sem vinnur með langveikum börnum og börnum með þroskafrávik eða fötlun, sem og aðstandendur og háskólanema. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Börn með fatlanir - Viðhorf og valdefling. 

Á ráðstefnunni verða viðhorf og valdefling fatlaðra barna í brennidepli. Kynnt verður verkefni sem unnið var á vegum Embættis umboðsmanns barna sem kallast Raddir fatlaðra barna. Eiður Welding fötlunarfræðari segir frá sinni reynslu, fulltrúar úr Ungmennaráði Þroskahjálpar kynna sín áherslumál og Atli Lýðsson mun segja frá fjölskyldubúðum sem haldnar voru í Vík í Mýrdal síðastliðið sumar. Fjallað verður um fjölbreyttar birtingarmyndir þroskahömlunar og hvernig framfarir í erfðafræði geta nýst við ráðgjöf og meðferð þroskaraskana. Sjaldgæfir fötlunarhópar fá rými í dagskránni m.a. verður sagt frá þjónustu fyrir blind og sjónskert börn og kynntar niðurstöður tilviksrannsóknar um lífsgæði heyrnarlausra barna og unglinga. Til umfjöllunar verður kynheilbrigði og kynfræðsla, leiðir fyrir fötluð ungmenni til samskipta gegnum tölvu- og hlutverkaleiki og kynntar nýjungar í upplýsingatækni við stuðnings- og sérkennslu.

Nánar um ráðstefnuna, dagskrá og skráningu má finna hér.