Styrkur til Barnahúss eflir starfsemi og styttir biðlista

Undirritun vegna styrks
Undirritun vegna styrks

Barnahús, sem sinnir málefnum barna sem sætt hafa kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi, hefur fengið styrk að upphæð 35 milljónir króna sem nýtist til styttingar biðlista ásamt því að efla starfsemina verulega. Styrkurinn er liður í aðgerðapakka stjórnvalda til þess að bregðast við afleiðingum Covid-19 faraldursins og er ein af tillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem skipað var í maí af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. Aðgerðateymið skipa Eygló Harðardóttir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.

Styrkurinn gerir Barnahúsi kleift að fjölga ráðgjöfum og þannig stytta biðlista, en um fimm mánaða biðlisti er sem stendur eftir þjónustu Barnahúss. Fyrsta greiðsla vegna styrksins var veitt í sumar og hefur nýr ráðgjafi þegar hafið störf. Ásókn í þjónustu Barnahúss hefur aukist undanfarna mánuði, auk þess sem þjónustan hefur verið útvíkkuð til að sinna einnig börnum sem sætt hafa líkamlegu ofbeldi. Þá mun styrkurinn nýtast til að tryggja betur aðgengi að þjónustu óháð staðsetningu skjólstæðinga og starfsmanna, en Covid-19 faraldurinn hefur sýnt fram á nauðsyn þess.

Hér má lesa alla fréttina á vef Félagsmálaráðuneytisins.