Háskólanemi hlýtur viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni unnið á RGR

Helen Marie Frigge hlaut nýlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni nema í starfsréttindanámi í sálfræði frá Sálfræðifélagi Íslands en hún  hefur nýlega lokið námi í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið heitir Exploration of Referral Patterns and Diagnoses in Relation to Native Versus Foreign Background in Children with Suspected Neurodevelopemental Disorders, eða „Tilvísana- og greiningarmynstur meðal barna með grun um taugaþroskaröskun; Samanburður eftir bakgrunni“ það er unnið undir handleiðslu Urðar Njarðvík, Emilíu Guðmundsdóttur og Evald Sæmundsen en hún vann lokaverkefni sitt í samstarfi við Ráðgjafar- og greiningarstöð. 

Með þessum verðlaunum vekur Sálfræðifélag Íslands athygli á góðum vinnubrögð og upphefur öfluga unga sálfræðinga sem sinna rannsóknarstarfi. Einnig kýs félagið að undirstrika mikilvægi rannsókna sem hluta af framþróun í  stétt sálfræðinga.

Í rökstuðningi fyrir tilnefningu kemur fram að verkefnið felist í greiningu á munstri í tilvísunum barna eftir uppruna þeirra, eftir því hvort að barnið hafi íslenskan eða erlendan bakgrunn, en nýlegar rannsóknir hafa bent til að auknar líkur séu á taugaþroskaröskunum meðal barna af erlendum uppruna. Unnið var með stórt gagnasafn frá Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins í þessu sambandi. SÍ metur það svo að vísindaleg vinnubrögð hafi verið til fyrirmyndar í þessu verkefni og að nemanda hafi tekist að koma viðamikilli úrvinnslu á stóru gagnsafni vel til skila í ritgerðinni.  Hún er skrifuð á mjög góðri ensku og textinn inniheldur ítarleg yfirlit fyrri rannsókna á sviðinu auk þess sem túlkun niðurstaðna í umræðukafla er vel útfærð og tengir niðurstöðurnar m.a. vel við þá faglegu og samfélagslegu þætti sem eru mikilvægir rannsóknum af þessu tagi. Einnig telur SÍ hagnýtt gildi verkefnisins mikið og að það veki upp mikilvægar spurningar sem geta eflt umræðu og haft mótandi áhrif á gæði, fagmennsku og framvindu á þessu sviði hér á landi.