Ráðgjafar- og greiningarstöð varð til 1. janúar 2022

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur fengið nýtt nafn en frá 1. janúar 2022 ber hún heitið Ráðgjafar- og greiningarstöð samkvæmt breytingum á lögum um stofnunina, sem þá tóku gildi. Þar með verður lögð áhersla á ráðgjafarhlutverk stofnunarinnar, hópar sem fá þjónustu frá henni eru skilgreindir betur og skyldur hennar gagnvart þeim verða skýrari.

Lögin hafa í för með sér ýmsar aðrar breytingar; hlutverki Ráðgjafar- og greiningarstöðvar gagnvart þjónustuveitendum er til að mynda betur lýst en áður. Stofnunin mun m.a. taka þátt í samþættingu þjónustu við fötluð börn, með öðrum aðilum sem sinna velferð barna. Lögð er rík áhersla á að ryðja í burtu hindrunum sem kunna að vera á því að börn njóti þeirrar þjónustu sem þau eiga rétt á. Einnig að samvinna þjónustukerfa sé best til þess fallin að barn fái þjónustu við hæfi.

Jafnframt skal Ráðgjafar- og greiningarstöð setja reglur um fyrirkomulag frumgreiningu sem þjónustuveitendum ber að fylgja, m.a. í þeim tilgangi að búa til skýrari ramma um undanfara þess að börnum er vísað til greiningar.

Breytingarnar á lögunum eru tilkomnar vegna heildarendurskoðunar á þjónustu í þágu farsældar barna. Í gegnum tíðina hefur ósjaldan komið fram gagnrýni foreldra, aðstandanda og fagfólks barna með fjölþættar þjónustuþarfir um að leita þyrfti þjónustu víða, að kerfin tali ekki saman og að sú staða væri bugandi fyrir foreldra og auki á vanda þeirra barna sem í hlut eiga. Vinnan við að brjóta niður þessa múra hófst árið 2018 undir stjórn þáverandi félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einar Daðasonar, og hefur mikil vinna farið fram síðan þar til farsældarlögin svokölluðu voru samþykkt í júní 2021.