Nýtt nám í hagnýtri atferlisgreiningu

Boðið verður upp á framhaldsnám í hagnýtri atferlisgreiningu í Háskóla Íslands frá og með haustinu 2020 í samstarfi tveggja öflugra deilda innan skólans. Með þessu er verið að bregðast við ákalli um að fjölga sérfræðingum í samfélaginu sem hafa þekkingu á árangursríkum vinnubrögðum og geta skapað jákvæðar og hvetjandi námsaðstæður fyrir fjölbreyttan hóp barna.

„Við viljum meðal annars mennta fagfólk sem getur beitt atferlisgreiningu á áhrifaríkan hátt í starfi með börnum með margvíslegar þarfir, þar á meðal hegðunarerfiðleika, námserfiðleika, einhverfu og önnur þroskafrávik. Það er mikil þörf á fagfólki með slíka menntun og því mikilvægt að bjóða upp á hagnýtt nám og næga starfsþjálfun. Námið er skipulagt í samræmi við alþjóðlegar kröfur um kenningarlegan grunn og hagnýta þjálfun með áherslu á siðareglur greinarinnar og fagmennsku í starfi,“ segir Íris Árnadóttir, verkefnisstjóri námsins í frétt frá HÍ.

Starfsmenn GRR lögðu grunn að náminu

Nokkrir starfsmenn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar komu töluvert við sögu í því ferli sem átti sér stað áður en ákveðið var að bjóða upp á námið. Sigíður Lóa Jónsdóttir sálfræðingur hjá stofnuninni segir að í kjölfar þátttöku hennar í fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni á árangri atferlisþjálfunar fyrir börn með einhverfu, sem stóð yfir á árunum 1995 til 2000, hafi Greiningar- og ráðgjafarstöð byrjað að bjóða upp á námskeið og ráðgjöf í atferlisþjálfun.
„Í tengslum við það fóru tveir starfsmenn erlendis til þess að afla sér frekari reynslu á þessu sviði. Næstu árin kom sú umræða reglulega upp á einhverfusviði, sem þá var starfrækt á stofnuninni, að þörf væri á að bjóða upp á heildstætt nám í hagnýtri atferlisgreiningu á háskólastigi. Við höfðum þá fyrst og fremst í huga að gera þyrfti ákveðnar lágmarkskröfur til þeirra sem höfðu með höndum beina kennslu og þjálfun sem byggir á hagnýtri atferlisgreiningu og einnig til þeirra sem sinntu ráðgjöf til starfsfólks leikskóla, grunnskóla og foreldra. Í því sambandi horfðum við til Bandaríkjanna þar sem nýbúið var að skilgreina kröfur til náms og starfsþjálfunar í hagnýtri atferlisgreiningu sem leiddi til formlegrar vottunar,“ segir Sigríður Lóa.

Haustið 2008 tóku fulltrúar GRR í samstarfsnefnd GRR og HÍ málið upp á fundi. Góður vilji kom fram um að vinna að málinu saman. Í apríl 2009 fór formlegt erindi frá fulltrúum GRR í samstarfsnefndinni til deildarforseta sálfræðideildar HÍ þar sem óskað var eftir fundi með honum. Á fundinum, sem haldinn var í júní það sama ár, var ákveðið að koma á fót nefnd til þess að vinna í málinu. Fulltrúi HÍ í nefndinni var Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, þáverandi lektor við sálfræðideild, og fulltrúar GRR voru þau Sigríður Lóa Jónsdóttir og Atli Freyr Magnússon. Einnig var ákveðið að leita til Önnu-Lindar Pétursdóttur, þá lektors við Menntavísindasvið HÍ, með þátttöku í nefndinni og athugaðir yrðu möguleikar á því að stofna til samvinnu við Menntavísindasvið um slíkt nám. Nefndin kallaði til ýmsa aðila á fundi sína, átti samráð við kollega erlendis, safnaði gögnum um þau námskeið sem þegar voru í boði á þessu sviði í HÍ, skilgreindi það sem þyrfti að bæta við og setti fram hugmyndir um tilhögun námsins. Nefndin skilaði lokaskýrslu árið 2013 á fundi með þáverandi forseta sálfræðideildar HÍ.

Að sögn Sigríðar Lóu lagðist málið að einhverju leyti í dvala í nokkur ár eftir 2013 þó svo það hefði verið rætt reglulega. Árið 2018 sendi forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöð formlegt erindi til Háskóla Íslands og vakti athygli á þessu máli sem hafði verið í farvegi í áratug. Skipaður var starfshópur á ný, þvert á deildir innan háskólans ásamt fulltrúa Greiningar- og ráðgjafarstöðvar, Emilíu Guðmundsdóttur sálfræðingi, sem vann að undirbúningi námsins.