Mikil aðsókn á Að sjá hið ósýnilega

Óhætt er að segja að kvikmyndin Að sjá hið ósýnilega, sem er heimildarmynd um konur á einhverfurófi, hafi fengið góðar viðtökur en uppselt er á þrjár fyrstu sýningar og bætt hefur verið við tveimur sýningum til að anna eftirspurn. Í ummælum um myndina segir m.a. „Að sjá hið ósýnilega er áhugaverð og vel gerð íslensk heimildarmynd um konur á einhverfurófi þar sem þær segja frá lífi sínu og reynslu af hugrekki og einlægni. Þessi mynd á örugglega eftir að auka skilning á einhverfu. Á forsýningu myndarinnar í kvöld féllu mörg tár." (Sigríður Lóa Jónsdóttir). Nú þegar hafa borist töluvert margar fyrirspurnir erlendis frá um að fá myndina til sýninga.
Fyrrverandi starfskona Greiningar- og ráðgjafarstöðvar, Þóra Leósdóttir, er ein sex kvenna sem ýttu átakinu „að sjá hið ósýnilega" úr vör og situr hún í ritstjórn verkefnisins. Hún er iðjuþjálfi, og starfar nú sem formaður iðjuþjálfafélag Íslands en hún hefur starfað með einhverfum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra síðustu tvo áratugi. Þóra miðlar af mikilli reynslu og ástríðu um málefni kvenna á einhverfurófi. Hér má sjá Þóru ræða málefni einhverfra kvenna á málþingi á kaffihúsinu Flóru í október á sl. ári. Hér má sjá aðrar upptökur frá málþinginu á vef Einhverfusamtakanna. 

Hér má kaupa miða á sýningar framundan.