Marglitur mars

Einhverfusamtökinhafa hleypt af stokkunum nýjum listviðburði í tilefni af 2. apríl sem er alþjóðadagur einhverfu.

Í ár er ætlunin að beina sjónum að listum og skapandi greinum með því að efna til listsýningar og lifandi dagskrár þar sem fólk á einhverfurófi er í aðalhlutverki. Yfirskrift verkefnisins í ár verður „Marglitur mars“. Hugmyndin að baki verkefninu byggir á fjölbreytileika einhverfurófsins og þeirri margbreytilegu listsköpun og frumleika sem þar er að finna. Í forgrunni verður fjölbreyttur hópur listafólks og skapandi einstaklinga á einhverfurófi og verður verkum þeirra leyft að tala.

Sjálf listsýningin verður haldin 2. og 3. apríl í húsnæði Hamarsins, ungmennahúss, að Suðurgötu 14 í Hafnarfirði. Verkefnið hefst í marsmánuði með kynningu á þátttakendum, list þeirra og sköpun með umfjöllun á samfélagsmiðlum Einhvefusamtakanna og í fjölmiðlum.

Það er von Einhverfusamtakanna að Marglitur mars muni verða vettvangur samtals og jákvæðrar umfjöllunar og upphaf að nýrri hefð.

Hér má sjá Facebook síðu Marglits mars og fylgjast með listviðburðum og lesa um listafólk á einhverfurófi sem tekur þátt.