Lokaúthlutun úr Styrktarsjóði Þorsteins Helga Ásgeirssonar

Styrkhafar ásamt fjölskyldu Þorsteins Helga
Styrkhafar ásamt fjölskyldu Þorsteins Helga

Mánudaginn 8. júní voru veittir styrkir úr Styrktarsjóði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar til minningar um Þorstein Helga Ásgeirsson í síðasta sinn. Sjóðurinn var stofnaður 8. júní 1995, þegar hann hefði orðið 5 ára gamall. Úthlutunin átti sér stað á degi sem hefði verið 30. afmælisdagur Þorsteins Helga. Hann lést 20. janúar 1995.

Markmið sjóðsins þennan aldarfjórðung hefur verið að stuðla að aukinni þekkingu á þroskaröskunum og fötlunum barna með því að styrkja fagfólk til framhaldsmenntunar og rannsóknarstarfa og hefur starfsfólk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar haft forgang að styrkjunum.

Sjóðurinn hefur starfað samfleytt í 25 ár en aðstandendur sjóðsins tóku þá ákvörðun að starfsemi sjóðsins skyldi taka endi á þessum tímamótum. Af þessu tilefni kom fjölskylda Þorsteins Helga og starfsfólk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar saman og átti hátíðlega stund. Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar, fór stuttlega yfir sögu sjóðsins. Faðir Þorsteins Helga, Ásgeir Þorsteinsson, sagði frá tilurð þess að sjóðurinn var settur á laggirnar á sínum tíma og rifjaði upp gildi sí- og endurmenntunar í þágu barna með fötlun og langveikra barna í ljósi þess hver þróunin er mikil í þeim ólíku faggreinum sem sinna þessum mikilvæga hópi.

Það kom í hlut bróður Þorsteins Helga, Helga Freys Ásgeirssonar, að afhenda styrki sjóðsins í þetta síðasta skipti. Eftirfarandi starfsmenn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar hlutu styrki:

María Jónsdóttir fyrir Grafíska hönnun á rafrænu verkefnahefti um Kynheilbrigði, útgáfu bæklings um Batten sjúkdóminn og námskeiðið PEERS Dating Bootcamp.

Aðalheiður Una Narfadóttir, Helga Kristín Gestsdóttir, Herdís Hersteinsdóttir, Ingibjörg G. Guðrúnardóttir og Þóra B. Bjartmarz fyrir handleiðslu í TEACCH – Skipulagðri kennslu frá Svanhildi Svavarsdóttur.

Thelma Rún van Erven, fyrir námskeiðið PEERS Dating Bootcamp.

Herdís Hersteinsdóttir, Hólmfríður Ó. Arnalds, Inger J. Daníelsdóttir fyrir rafrænt námskeið í PECS.

Ingólfur Einarsson, Hrönn Björnsdóttir, vegna ráðgjafar Félagsvísindastofnunar fyrir spurningakönnun um þjónustu fyrir fötluð börn sem eru í langtímaeftirfylgd á Greiningarstöð.

Guðný Stefánsdóttir og Þóranna Halldórsdóttir fyrir ráðstefnu AAIDD.

Hanna Björg Marteinsdóttir,  Ingveldur K. Friðriksdóttir og Marrit Meintema fyrir ráðstefnuna European Academy of Childhood Disability.

Guðbjörg Björnsdóttir fyrir ráðstefnuna Down Syndrome Congress.

Helga Kristín Gestsdóttir fyrir styrk til þátttöku á 40 ára afmælisráðstefnu TEACCH.

Lilja Árnadóttir vegna meistaranáms í hagnýtri atferlisgreiningu.

 Aukastyrkur var að auki veittur til Yngri barna sviðs vegna tækjakaupa fyrir fötluð börn.