Leiðbeiningar til aðstandenda langveikra barna

Landlæknisembættið og Barnaspítali Hringsins hafa gefið út leiðbeiningar til forelda og annarra aðstandenda langveikra barna og ungmenna og annarra barna í sérstökum áhættuhópum. Langlíklegast er að að börn sem smitist af COVID-19 sýni einungis væg einkenni en þegar eftirtaldir sjúkdómar eru til staðar gætu einkenni sýkingar orðið meiri og alvarlegri:

Langvinnir lungnasjúkdómar, og þá sérstaklega:

  • Slímseigjusjúkdómur (cystic fibrosis)
  • Langvinnur lungnasjúkdómur í kjölfar fyrirburafæðingar
  • Primary ciliary dyskinesia
  • Ákveðnir meðfæddir gallar á lungnavef

Alvarlegir hjartasjúkdómar, og þá sérstaklega:

  • Hjartabilun sem krefst lyfjameðferðar
  •  Blámahjartagallar með marktækt lækkaðri súrefnismettun (að staðaldri  <90%)

Líffæraþegar (hjarta, lifur, nýru).

  • Fyrstu 6 mánuðina eftir ígræðslu ef meðferð gengur samkvæmt áætlun.

Alvarlegir langvinnir taugasjúkdómar, og þá sérstaklega:

  • Illvíg flogaveiki (með tíðum flogum)
  • Vöðva-, tauga- eða efnaskiptasjúkdómar sem hafa áhrif á lungnastarfsemi

Í ljósi þess að samfélagssmitum COVID-19 veirunnar fer fjölgandi, er ráðlegt að börn sem hafa ofangreinda sjúkdóma sæki hvorki dagvistun né skóla næstu vikurnar, þar til annað verður ákveðið.

Sjá nánari upplýsingar frá Barnaspítala Hringsins.

Sjá nánari upplýsingar frá Landlæknisembættinu.