Í dag er alþjóðlegur dagur einhverfu

Í dag er alþjóðlegur dagur einhverfu en Sameinuðu þjóðirnar lýstu því yfir árið 2007 að 2. apríl ár hvert skyldi helgaður aukinni meðvitund um einhverfu. Samþykkt Sameinuðu þjóðanna er ætlað að vekja athygli á einhverfu sem hefur áhrif á tugi milljóna manns út um allan heim.

Sameinuðu þjóðirnar hvetja allar þjóðir heims til að auka vitund og fræðslu um einhverfu og hvetja til greiningar og snemmtækrar íhlutunar hjá þeim börnum sem kunna að vera á rófinu. Sömuleiðis lýsa SÞ yfir áhyggjum af tíðni einhverfu meðal barna alls staðar í veröldinni og þeim áskorunum í þroska sem þau börn standa frammi fyrir.

Á hverju ári vinna samtökin Autism-Europe ásamt samstarfssamtökum í Evrópu að kynningarherferðum um einhverfu og rétt fólks með röskunina. Kynningarherferð Autism Europe í ár ber yfirskriftina: „Nýr kraftur fyrir einhverfu“  (New Dynamic for Autism) og munu samtökin skipuleggja viðburði í tengslum við hana.

Samtökin Blár apríl hafa látið framleiða myndbönd um Dag og Maríu og þeirra sýn á lífið en markmið samtakanna er að auka vitund og þekkingu almennings á einhverfu og að safna fé sem rennur til styrktar málefnum sem hafa áhrif á börn með einhverfu og fjölskyldur þeirra.

Skólabörn víða á landinu eru hvött til að mæta í einhverju bláu í dag og sýna þannig fólki sem greinst hefur með einhverfu stuðning. 

Smellið hér til að fara inn á vef Einhverfusamtakanna.