Hvernig er best að tala við börn um kórónaveiruna?

Það er mikilvægt að tala við börn um kórónaveiruna, einkum og sér í lagi ef þau hafa af henni miklar áhyggjur, sem og ástandinu sem henni fylgir. Nokkur atriði er mikilvægt að hafa í huga:

- Hlustum á börnin. Finnum út hvað þau vita nú þegar og hvort þau vilji vita meira. Almennt er óþarfi að fræða börn um flókna hluti ef þau telja sig vita nóg og ef þau kæra sig ekki um að vita meira. Of miklar upplýsingar geta skapað kvíða. Að sama skapi er mikilvægt að kanna hvort börnum vanti eða hvort þau hafi rangar upplýsingar. Áhyggjur og kvíði geta minnkað eða horfið þegar rætt er við börn á þeirra forsendum.

- Svörum spurningum barna á sem einfaldastan hátt og höldum okkur við þær áhyggjur sem barnið kann að hafa. Tölum aðeins um staðreyndir og lausnir og forðumst vangaveltur um eitthvað sem gæti mögulega gerst. Forðumst umræður um það sem barnið hefur ekki heyrt og þarf ekki að vita. Því yngra sem barnið er, því einfaldari höldum við upplýsingunum.
Miðum upplýsingarnar við að barnið fái skýr og einföld svör sem eru til þess fallin að draga úr áhyggjum þeirra og hugsanlegum kvíða. Gefum börnunum þann tíma sem þau þurfa og pössum að spjallið fari ekki fram á hlaupum eða í einhverskonar ergelsi.

-  Tölum um lausnir. Ræðum við börn um þá hluti sem þau geta gert sjálf og bendum þeim  því á hvað fjölskyldur geta gert í sameiningu. Af hverju ekki er farið t.d. farið ekki í heimsókn til afa og ömmu, af hverju við erum svona mikið heimaog fleira í þessum dúr. Það má vel útskýra fyrir þeim börnum sem hafa þroska til, að við sem samfélag séum að passa sem best upp á þau sem geta orðið mest veik. Með þessu móti upplifa börn sig virka þátttakendur í þessu ástandi og finnst sem þau leggi af mörkum í baráttunni (hafi þau aldur til þess).

- Drögum úr stöðugum neikvæðum fréttaflutningi á heimilinu. Flestar fréttir sem birtast í sjónvarpi eða heyrast í útvarpi má lesa á netinu. Ef horft er á sjónvarpsfréttir með börn nálægt er gott að takmarka áhorf á slíkt fréttaefni þar sem öll neikvæðustu tíðindin og sjónvarpsefnið eru gjarna dregið saman oft með ógnvekjandi hætti.

Hér má sjá upplýsingar sem ætlaðar eru börnum um kórónaveiruna, og það sem er að gerast í heiminum, frá Umboðsmanni barna

Hér er upplýsingabæklingur frá Landlækni sem hentar yngstu börnunum

Heimildir fyrir textanum hér ofar voru m.a. fengnar frá Danska ríkissjónvarpinu og skóla Ísaks Jónssonar