Frumvarpsdrög kynnt í málefnum barna

Töluverðar breytingar eru á döfinni í málefnum barna og fjölskyldna hérlendis en félags- og barnamálaráðherra hefur sett þrjú frumvörp sem varða málefni barna í samráðsgátt stjórnvalda. Ráðherra hefur lagt áherslu á málefni barna í embætti sínu og undanfarin tvö ár hefur farið fram margþætt vinna við endurskoðun á félagslegri umgjörð barna og fjölskyldna þeirra með snemmtækan stuðning, samþætta þjónustu og samstarf þvert á stofnanir að leiðarljósi. 

Frumvörpin eru jafnframt unnin í samstarfi við þverpólitíska þingmannanefnd um málefni barna og fulltrúa allra hlutaðeigandi ráðuneyta. Þau hafa jafnframt farið í gegnum mikið samráð á fyrri stigum og fengið umfjöllun fjölmargra annarra aðila á vettvangi ríkis, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Markmiðið með frumvörpunum er að auka gæði þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og munu þau hafa áhrif á hvernig stofnanir og starfsmenn í mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfinu hlúa að börnum.

Vinna við frumvörpin er nú komin á það stig að rétt þykir að veita almenningi færi á beinni aðkomu að henni. Börn og ungmenni, ásamt fólki sem starfar í nærumhverfi barna, eru sérstaklega hvött til þess kynna sér tillögurnar og lýsa áliti sínu á þeim.

Sjá nánari upplýsingar á vef Félagsmálaráðuneytisins.