Alþjóðadagur fatlaðra 3. desember

Alþjóðadagur fatlaðra er 3. desember ár hvert en hann var fyrst haldin 1992 fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna í kjölfar alþjóðaárs fatlaðra 1981 og áratugs fatlaðs fólks 1981-1991. Landsamtökin Þroskahjálp veita Múrbrjótinn á þessum degi ár hvert en viðurkenningin er veitt einstaklingi, einstaklingum, félagi eða verkefni sem að mati samtakanna hafa brotið niður múra í réttindamálum fatlaðs fólks og viðhorfum til þess og með því stuðlað að því að fatlað fólk verði fullgildir þátttakendur í samfélaginu og hafi tækifæri til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.  Í ár verður athöfn hjá Ás styrktarfélagi, Öguhvarfi 16 kl. 14:00. 

Þemað í ár er valdefling fatlaðs fólks og að tryggja þátttöku þeirra og jafnrétti en það er hluti af 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin voru samþykkt af öllum aðildarþjóðum SÞ haustið 2015 og fela í sér metnaðarfyllstu markmið sem þjóðir heims hafa sett sér til að bæta heiminn í þágu mannkynsins og jarðarinnar, fyrir árslok 2030. Heimsmarkmiðin fela einnig í sér loforð um að allir séu með (leave no one behind). Í tilefni dagsins í ár mun framkvæmdastjóri SÞ birta skýrslu (UN Flagship Report on Disability and Development 2018 - Realizing the SDGs by, for and with persons with disabilities) þar sem fram kemur samtenging heimsmarkmiðanna og fatlaðs fólks.