Mátturinn í margbreytileikanum!

Vorráðstefna 2018
Vorráðstefna 2018

Vorráðstefnan 2018 verður vel sótt því um fimm hundruð manns hafa boðað komu sína. Skráningu lauk í gær og við hlökkum til að sjá ykkur!

Ráðstefnugjald er kr. 26.500 fyrir fagfólk og kr. 16.000 fyrir fatlað fólk og nána aðstandendur.

Dagskrá vorráðstefnunnar

Brot af því efni sem verður á boðstólum:

Bára Kolbrún Gylfadóttir sálfræðingur segir frá lykilþáttum og hagnýtum leiðum atferlisíhlutunar en það er þjálfunaraðferð sem hefur rutt sér til rúms í þjónustu við börn á einhverfurófi undanfarna áratugi þar sem markmiðið er að auka færni einhverfra til náms og leiks.

Björn Hjálmarsson barna- og unglingageðlæknir ræðir um mismunagreiningu og einhverfurófið en það getur verið flókið að greina einhverfu og margt kemur til álita.

Bragi Walters líffræðingur fjallar um rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar á erfðaþáttum einhverfu og skyldra raskana.

Elí Freysson deilir reynslu sinni og gefur þátttakendum innsýn í „lífið á rófinu“

Eva Engilráð Thoroddsen talmeinafræðingur kynnir mismunandi leiðir og úrræði við talþjálfun barna á einhverfurófi.

Dr. Evald Sæmundsen sálfræðingur gefur yfirlit yfir einhverfu og einhverfurófið þar sem hann fer yfir sögu og þróun, rannsóknir, algengi og framtíðarsýn.

Helga Kristín Gestsdóttir iðjuþjálfi fjallar um það hvernig skipulögð kennsla og sjónrænar vísbendingar í umhverfi einhverfra geta skipt miklu máli til að auka fyrirsjáanleika og draga úr hamlandi einkennum einhverfu. Rætt verður um TEACCH hugmyndafræðina og það hvernig sú nálgun nýtist börnum og ungmennum í daglegu lífi. 

Jarþrúður Þórhallsdóttir sjúkraþjálfari og einhverfuráðgjafi ræðir um það hvernig skynjun einhverfra er önnur en þeirra sem ekki eru á einhverfurófi og hvaða áhrif hún hefur til dæmis á daglegt líf, sjálfskilning og félagsleg tengsl.

Sigríður Lóa Jónsdóttir sálfræðingur fjallar um helstu leiðir sem hafa verið farnar í þjálfun og kennslu fólks á einhverfurófi. Farið verður yfir íhlutunaraðferðir gegnum tíðina og rætt hvað reynslan hefur kennt okkur.

Dr. Snæfríður Þóra Egilson ætlar að skoða þátttöku fatlaðra barna og ungmenna í gagnrýnu ljósi en rannsóknir sýna takmarkaðri þátttöku hjá þessum hópi en hjá jafnöldrum við ýmsar aðstæður. Þátttaka í skóla og samfélagi tengist lífsgæðum og velsæld barnanna og því mikilvægt að skapa forsendur og tækifæri til að þau geti tekið þátt.

Soffía Elín Sigurðardóttir og Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingar hafa þróað Nexus Noobs nördanámskeiðin því þau vildu búa til vettvang fyrir ungt fólk til þess að leggja stund á skemmtilegt nördaáhugamál.

Dr. Urður Njarðvík fjallar um birtingarmynd kvíða meðal barna og unglinga, tíðni kvíðaraskana og tengsl þeirra við raskanir á einhverfurófi. Farið verður yfir helstu meðferðarleiðir og áskoranir í meðhöndlun kvíða meðal barna á einhverfurófi.

Fylgstu með á facebook og www.greining.is