Starfsmenn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar hljóta akademiskar nafnbætur

Afhending akademískra nafnbóta við HÍ
Afhending akademískra nafnbóta við HÍ

Tveir sérfræðingar sem starfa á Greiningar- og ráðgjafarstöð voru á meðal þeirra sem tóku á dögunum við akademískri nafnbót við Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans. Þetta eru þau Evald Sæmundsen sálfræðingur og sviðstjóri rannsókna og Ingibjörg Georgsdóttir barnalæknir.

Auk þeirra hlutu 19 starfsmenn frá Landspítala, Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og Krabbameinsfélagi Íslands akademiskar nafnbætur. Tilgangur nafnbótanna er ekki aðeins að viðurkenna akademískt hæfi heldur einnig að styrkja hin nánu tengsl sem eru á milli Háskólans og þessara stofnana, en þær stunda saman öflugt vísindastarf, annast sameiginlega menntun og þjálfun fagfólks í heilbrigðisþjónustu auk þess að vinna að hagnýtingu þekkingar og nýsköpunar á sviði heilbrigðisvísinda.

Í samstarfssamningi Háskóla Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins kemur meðal annars fram að starfsfólk stofnunarinnar getur sótt um mat á akademísku hæfi til að gegna akademísku starfi við HÍ. Einstaklingar sem eru valdir til að til að gegna akademískum gestastörfum skulu ótvírætt uppfylla sömu kröfur um faglegt hæfi og gerðar eru til þeirra sem starfa við kennslu og sjálfstæðar rannsóknir innan HÍ.

Þess má geta að starfsmenn á Greiningar- og ráðgjafarstöð sinna ýmsum verkefnum fyrir Háskóla Íslands eins og kennslu, leiðsögn vegna lokaverkefna nema, setu í nefndum vegna meistara- og doktorsnáms, eru prófdómarar og andmælendur, taka þátt í rannsóknasamstarfi og ritun fræðigreina í innlend og erlend fagtímarit.

Byggt á frétt af vefsíðu Háskóla íslands, nánari upplýsingar hér