Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fullgiltur

Í gær þann 20. september samþykkti Alþingi einróma þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi.

Markmiðið með samningingnum er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir meðfæddri göfgi þess. Til fatlaðs fólks teljast þeir sem eru líkamlega, andlega eða vitsmunalega skertir eða sem hafa skerta skynjun til frambúðar sem kann, þegar víxlverkun verður milli þessara þátta og tálma af ýmsu tagi, að koma í veg fyrir fulla og virka þátttöku þeirra í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli.

Níu ár eru liðin frá því Ísland undirritaði samninginn. Þingmenn fögnuðu því að Alþingi væri loks að fullgilda samninginn og töluðu um að þetta væri stór stund. Við á Greiningar- og ráðgjafarstöð fögnum líka og óskum okkur öllum til hamingju með þessi tímamót.

Hér má sjá umfjöllun RUV í sjónvarpsfréttum í gær

Hér má finna umfjöllun á vefsíðu Þroskahjálpar

Hér má finna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks