Orðagull er nýtt málörvunarapp fyrir spjaldtölvur

Talmeinafræðingar kynna Orðagull
Talmeinafræðingar kynna Orðagull

Nýtt smáforrit fyrir spjaldtölvur er komið út og var það kynnt á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Forritið nefnist Orðagull og er hannað fyrir elstu börn í leikskóla og yngstu börn í grunnskóla. Höfundar eru þær Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og læsisráðgjafi hjá Menntamálastofnun og Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur hjá Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar. Árið 2010 gáfu þær út bók sem bar sama nafn en smáforritið byggir á sama grunni. „Hugmyndin kviknaði þegar spjaldtölvuvæðingin hófst. Margir leik- og grunnskólar bjóða upp á kennslu á spjaldtölvur en námsefni á íslensku skortir,“ segja Bjartey og Ásthildur. Þær segja að í talmeina- og læsisheimum merki menn augljósan mun á hve orðaforða íslenskra barna er að fara aftur. „Mörg börn kunna orðin á ensku en ekki íslensku. Það er gott mál ef börn læra annað tungumál en það er graf­alvarlegt ef það bitnar á íslenskunni.“

Útgáfa forritsins er lítið skref í að bregðast við þessari þróun. Smáforritið er fáanlegt ókeypis fyrir tæki með iOS-stýrikerfi. Þegar lagt var í vinnuna var markmiðið að hafa forritið án endurgjalds og það tókst með styrkjum frá Rannís, Barnavinafélaginu Sumargjöf og Minningarsjóði Bjarna Snæbjörnssonar og Helgu Jónsdóttur.

Byggt á frétt í Fréttablaðinu þann 16. nóvember 2016.