Nýr samstarfssamningur undirritaður

Nýr samstarfssamningur GRR og HÍ undirritaður
Nýr samstarfssamningur GRR og HÍ undirritaður

Soffía Lárusdóttir forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríksins og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands undirrituðu á dögunum nýjan samning um aukið samstarf stofnananna. Hann felur meðal annars í sér möguleika fyrir nemendur háskólans til verklegs náms á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni og eflingu rannsókna sem tengjast greiningu og ráðgjöf fyrir börn með þroskaraskanir og fatlanir af ýmsum toga.

Markmið hins nýja samnings er meðal annars að styrkja nýliðun fagfólks í starfi með fötluðum börnum og tryggja að báðir aðilar hafi greiðan og gagnkvæman aðgang að sérþekkingu fagfólks á hvorri stofnun fyrir sig. Þá er samningnum einnig ætlað að stuðla að framgangi vísindarannsókna í faggreinum innan félags- og heilbrigðisvísinda sem tengjast greiningu, ráðgjöf og þjónustu fyrir þennan hóp barna og fjölskyldur þeirra.

Samningurinn er til fimm ára og tekur við af fyrri samningi stofnananna. Sjö manna samstarfsnefnd hefur umsjón með framkvæmd samningsins.

Byggt á frétt af vefsíðu Háskóla Íslands. Sjá nánar hér