Fræðslusamstarf milli Rúmeníu og Íslands vegna einhverfu

Samstarfsverkefnið heitir „Aðlagað samfélag – Þátttaka allra barna“ og felst í að þróa aðferðir til að styðja skóla við að taka á móti börnum með einhverfu í Rúmeníu. Verkefnið er styrkt af EFTA og rúmenskum yfirvöldum og nemur rúmlega 22 milljónum íslenskra króna og varir í heilt ár.

Í byrjun apríl síðast liðinn tók gildi samstarfssamningur milli Romanian Angel Appeal Foundation og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins með stuðningi rúmenskra yfirvalda á sviði félagslegrar aðstoðar og barnaverndar. Verkefnið nær til 10 héraða í Rúmeníu, þar sem aukningar einhverfu hefur orðið vart, og felst í að styðja við skólagöngu 100 barna með fræðslu til einhverfuteyma sem staðsett eru á miðstöðvum sem veita félagslega þjónustu í hverju héraðanna. Opinberar tölur fyrir tímabilið 2012-2013 í þessum héruðum sýna að 388 börn og ungmenni með einhverfu sóttu ekki skóla, þrátt fyrir að vera á skólaaldri.

Verkefnið byggir á samstarfi barnaverndaryfirvalda, fjölskyldna og skóla, ásamt þverfaglegu samstarfi. Eitt hundrað og þrjátíu fagmenn (100 kennarar og 30 sálfræðingar og sérkennarar sem starfa á þjónustumiðstöðvunum) munu verða þjálfaðir í sérstökum vinnubrögðum sem henta börnum með einhverfu og foreldrar 100 barna munu fá fræðslu og stuðning til að byggja upp góð tengsl við skólann.

Framlag Greiningarstöðvar felst í fræðslu fyrir þennan hóp í formi námskeiða og vinnusmiðja í Rúmeníu í október 2015. Í haust verður auk þess tekið á móti sautján manna sendinefnd sem vill fræðast um þjónustukerfið á Íslandi fyrir börn með einhverfu með sérstaka áherslu á skólamál (almennir skólar, sérskólar, sérdeildir, sérfræðiþjónusta skóla o.s.frv.). Áslaug Melax og Sigrún Hjartardóttir sjá um þessa fræðslu fyrir hönd Greiningarstöðvar ásamt Svanhildi Svavarsdóttur einhverfuráðgjafa og boðskiptafræðingi. Evald Sæmundsen er tengiliður verkefnisins á Greiningarstöð og Heimir Bjarnason sér um fjármálin. Að auki koma Einhverfusamtökin að verkefninu.

 

Tengiliður fyrir Rúmeníu:

Costinela Caraena, PR Coordinator

t-póstur: costinela.caraena@raa.ro

Tengiliður fyrir Ísland:

Dr. Evald Saemundsen, sviðsstjóri

t-póstur: evald@greining.is